Helga Björk Eiríksdóttir, MBA

Helga Björk hefur frá upphafi verið ráðgjafi í markaðsmálum og rekstri fyrirtækisins. Helga Björk er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í ensku og ítölsku frá Háskóla Íslands 1997 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun 1999 frá sama skóla. Helga Björk lauk prófi í markaðs- og útflutningsfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2002 og hefur lagt stund á verðbréfaviðskiptanám við Háskólann í Reykjavík.

Helga Björk hefur lengi starfað á fjármálamarkaði, er nú formaður bankaráðs Landsbankans hf. en hún hefur setið í bankaráði frá árinu 2013. Áður var Helga Björk fjárfesta- og almannatengill hjá Marel hf. ásamt því að gegna formennsku í stjórn Sparisjóðs Svarfdæla. Á árunum 2010-2012 starfaði hún við sjálfstæða ráðgjöf. Hún hafði umsjón með samskiptamálum fyrir skilanefnd og slitastjórn Kaupþings hf. á árunum 2009 og 2010. Þar áður starfaði Helga Björk m.a. sem markaðs- og kynningarstjóri Nasdaq á Íslandi um átta ára skeið. Helga Björk hefur einnig starfað við fjölmiðla, sinnt ýmsum öðrum störfum og var lengi starfsmaður Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík.