Spurningar & Svör

 1. 1.  Fæ ég læknis- og lyfjakostnað greiddan?

  Já, í flestum tilvikum áttu rétt á að fá þennan kostnað endurgreiddan. Lögmaður þínn innheimtir þennan kostnað hjá tryggingafélaginu.

 2. 2.  Get ég fengið ferðakostnað vegna læknismeðferðar greiddan?

  Já, í mörgum tilvikum áttu rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað vegna ferða til lækna eða sjúkraþjálfara. Biddu lögmanninn þinn um að aðstoða þig.

 3. 3.  Hvað er átt við með sök?

  Þegar ekki er kveðið á um strangari ábyrgð í lögum eða með samningi, bera menn ábyrgð á því tjóni sem þeir valda á grundvelli svokallaðrar sakarreglu. Eitt af skilyrðunum fyrir því að tjónvaldur verði dæmdur til að greiða bætur er að hann hafi valdið tjóni með því sem kallað er saknæm háttsemi. Með því er átt við að tjónvaldurinn hafi valdið tjóninu viljandi eða með gálausri hegðun eða athafnaleysi.

 4. 4.  Hvað er bótanefnd?

  Samkvæmt lögum nr. 69, 1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota ber ríkinu að greiða þeim bætur sem verða fyrir tjóni sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum, t.d. vegna alvarlegra líkamsárása og kynferðisbrota. Nokkur fleiri skilyrði verða þó að vera uppfyllt. Það þarf að gera kröfu um greiðslu bóta úr ríkissjóði og það er ráðlegast að fela lögmanni að annast það. Svokölluð bótanefnd tekur ákvörðun um það hvort ríkinu beri að greiða bætur.

 5. 5.  Hvað er læknisfræðileg örorka?

  Bætur vegna læknisfræðilegrar örorku eru reiknaðar út frá læknisfræðilegu mati á því hversu mikið líkamlegt eða andleg tjón er talið hafa hlotist af slysi. Er læknisfræðileg örorka óháð mati á því hversu mikil áhrif örorka getur haft á tekjuöflun viðkomandi (varanleg örorka samkvæmt skaðabótalögum). Læknisfræðileg örorka er sá grundvöllur sem miðað er við þegar bætur úr slysatryggingum eru gerðar upp.

 6. 6.  Hvað er matsfundur?

  Það er nefnt matsfundur þegar að matsmenn, yfirleitt læknar eða læknir og lögfræðingur, sem lögmaður þinn og tryggingafélagið hafa tilnefnt eða dómstóll dómkvatt, funda með þér. Fundurinn er boðaður með fyrirvara. Þar þarft þú að svara spurningum um slysið sem þú lentir í, heilsu þína fyrir og eftir slys, atvinnusögu fyrir og eftir slys og áhugamál. Loks skoðar læknir þig. Lögmenn mæta með þér á matsfund.

 7. 7.  Hvað er miski?

  Með miska er átt við andlega vanlíðan, hræðslu, ótta, martraðir o.fl. sem tjónþoli þarf að lifa við af völdum slyss eða árásar. Miski er ekki bættur þegar um er að ræða bætur úr frjálsum slysatryggingum.

 8. 8.  Hvað er stöðugleikapunktur?

  Þegar talað er um stöðugleikapunkt eða batahvörf er átt við þá dagsetningu þegar talið er að heilsufar þitt sé orðið stöðugt og þú munir ekki ná frekari bata.

 9. 9.  Hvað er tímabundið tekjutjón?

  Með tímabundnu tekjutjóni er átt við þær tekjur sem hinn slasaði verður af vegna slyss fram að stöðugleikapunkti. Ef þú getur sýnt fram á að þú hafir orðið af tekjum vegna slyss eða árásar áttu rétt á að fá þann tekjumissi bættan.

 10. 10.  Hvað er varanleg örorka?

  Varanleg örorka segir til um skerðingu á möguleikum þínum til að afla þér tekna á starfsævinni. Þannig þýðir t.d. 10% varanleg örorka að talið sé að vegna slyssins munir þú afla þér 10% minni tekna um ævina en annars hefði verið, annað hvort með því að vinna að meðaltali 10% minna það sem eftir er starfsævinnar eða hætta fyrr á vinnumarkaði sem því nemur. Maður sem á alls enga möguleika á að afla sér tekna með vinnu eftir slys er þá talinn vera með 100% varanlega örorku.

 11. 11.  Hvað er varanlegur miski?

  Með varanlegum miska er verið að meta það tjón sem þú verður fyrir vegna ýmissa skerðinga á daglegum athöfnum þínum og tómstundum, t.d. vegna minni möguleika á útivist, erfiðleika við hreyfingu og breytinga á ýmsum áhugamálum. Með einföldun má segja að um skerðingu lífsgæða sé að ræða. Hæstur er varanlegur miski 100%, en þá er átt við að viðkomandi sé nánast ósjálfbjarga. Viðkomandi fengi þá rúmlega kr. 8.000.000 í bætur fyrir varanlegan miska. Bætur fyrir minni miska reiknast í hlutfalli við það. Algengur metinn miski vegna háls- og/eða bakverkja af völdum umferðarslyss er 5-20%. Varanlegur miski er ekki bættur þegar um er að ræða bætur úr frjálsum slysatryggingum.

 12. 12.  Hvað eru frjálsar slysatryggingar?

  Með frjálsum slysatryggingum er átt við tryggingar sem menn kaupa sér af fúsum og frjálsum vilja, t.d. slysatryggingar sem innifaldar eru í fjölskyldutryggingum, ferðaslysatryggingar og fleiri tryggingar.

 13. 13.  Hvað eru lögbundnar tryggingar?

  Með lögbundnum tryggingum er átt við tryggingar, sem mönnum er skylt lögum samkvæmt að kaupa, t.d. slysatryggingu ökumanns og vátryggingu bifreiða samkvæmt umferðarlögum.

 14. 14.  Hvað eru þjáningabætur?

  Þjáningabætur eru ákveðin fjárhæð, sem greidd er fyrir hvern dag sem þú ert veik(ur). Ef þú ert rúmliggjandi af völdum slyss er fjárhæðin tvöfalt hærri en ef þú ert veikur án þess að vera rúmliggjandi.

 15. 15.  Hvað fæ ég háar bætur?

  Fjárhæð skaðabóta þegar um skaðabótaskylt tjón er að ræða, t.d. af völdum umferðarslyss ræðst venjulega að stærstum hluta af aldri þínum, tekjum síðustu þrjú ár fyrir slys og örorkuprósentu. Bætur fara sjaldan niður fyrir kr. 1.000.000 og nema yfirleitt fleiri milljónum króna. Þegar um er að ræða bætur úr slysatryggingu (t.d. fjölskyldutryggingu eða slysatryggingu vinnuveitanda) eru bætur yfirleitt mun lægri og ræðst fjárhæð bóta þá af vátryggingarfjárhæð annars vegar og læknisfræðilegri örorku hins vegar. Ef vátryggingarfjárhæð er t.d. kr. 7.000.000 fyrir 100% örorku og þú ert metin(n) með 20% læknisfræðilega örorku næmu bæturnar kr. 1.400.000. Hafir þú orðið fyrir líkamsárás eða kynferðisbroti eru bætur til þín ákveðnar með dómi hafi ekki náðst sátt um þær áður. Þær eru mismunandi eftir alvarleika og afleiðingum brotsins. Algengar bætur í líkamsárásarmálum eru frá kr. 100.000 til kr. 500.000 og í kynferðisbrotum frá kr. 300.000 til kr. 2.000.000.

 16. 16.  Hvað tekur langan tíma að fá bætur greiddar?

  Örorkumat fer yfirleitt ekki fram fyrr en liðið er a.m.k. ár frá slysi. Það er vegna þess að þá fyrst er talið óhætt að meta hvort afleiðingar slyss séu varanlegar. Algengt er að bætur séu greiddar þegar 2-3 ár eru liðin frá slysi. Dragir þú að leita þér lögmannsaðstoðar getur það leitt til þess að biðin verði lengri og oft getur orðið erfiðara að sýna fram á bótarétt.

 17. 17.  Hvað þarf ég að borga lögmanni mínum áður en bótamál hefst?

  Í langflestum tilvikum þarf ekkert að borga þar sem greiðsla til lögmanns er gerð upp þegar bætur fást greiddar. Stærstur hluti lögmannsþóknunar er í flestum tilvikum greiddur af viðkomandi tryggingafélagi þegar um er að ræða slysamál. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í líkamsárásar- og kynferðisbrotamálum greiðist úr ríkissjóði.

 18. 18.  Hver metur líkamstjón af völdum slyss?

  Oftast er það þannig að lögmaður þess slasaða og viðkomandi tryggingafélag koma sér saman um tvo menn, þ.e. tvo lækna eða lækni og lögmann, sem meta tjón hins slasaða. Þá er líka hægt að láta örorkunefnd, sem starfar samkvæmt skaðabótalögum, meta tjónið. Enn annar möguleiki er sá að dómkvaddir matsmenn, sem oftast eru læknar eða lögfræðingar, sjái um matið. Mat dómkvaddra matsmanna hefur að öðru jöfnu meira vægi en mat örorkunefndar og mat sem lögmaður þinn og tryggingafélagið hafa komið sér saman um að afla.

 19. 19.  Hvernig eru bætur fyrir varanlega örorku reiknaðar út? 

  Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar sem margfeldi af örorkuprósentu (t.d. 10%), uppreiknuðum meðallaunum þínum síðustu þrjú almanaksár fyrir slys og sérstökum stuðli, sem er að finna í skaðabótalögum og ræðst af aldri þínum þegar slys verður.

 20. 20.  Hversu mikla varanlega örorku er ég með?

  Það ræðst af örorkumati, sem yfirleitt er framkvæmt af tveimur læknum eða lækni og lögmanni. Varanlegar afleiðingar af tognun í hálsi eru oft metnar til 5-10% varanlegrar örorku og 10-30% ef um frekari meiðsli er að ræða, t.d. veruleg tognun í baki, eymsli í herðum og fleira. Séu varanlegar afleiðingar meiri verður metin varanleg örorka hærri, t.d. við mænuskaða, útlimamissi, blindu eða vitrænan skaða. Varanlega örorkan er metin eftir því hversu mikil áhrif hún hefur á möguleika hins slasaða til að afla sér tekna.

 21. 21.  Skiptir máli að ég var í órétti?

  Það er algengur misskilningur að menn eigi ekki rétt til bóta þar sem þeir hafi verið í órétti við árekstur eða í öðru umferðarslysi. Þetta skiptir hins vegar engu máli. Ölvun við akstur kann hins vegar að leiða til missis bótaréttar.

 22. 23.  Hvað er dregið frá skaðabótum?

  Frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón dragast:

  • laun í veikinda- eða slysaforföllum,
  • 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði,
  • greiðslur frá sjúkrasjóði,
  • dagpeningar.

  Frá þjáningabótum, bótum fyrir varanlegan miska og bótum fyrir varanlega örorku dragast:

  • bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum,
  • bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki,
  • greiðslur úr atvinnuslysatryggingu launþega þegar um er að ræða skaðabótakröfu á hendur vinnuveitanda vegna vinnuslyss,
  • bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu.