ALGENGAR SPURNINGAR

1. Fæ ég læknis- og lyfjakostnað greiddan?

Já, í flestum tilvikum áttu rétt á að fá þennan kostnað endurgreiddan. Lögmaður þínn innheimtir þennan kostnað hjá tryggingafélaginu.

2. Get ég fengið ferðakostnað vegna læknismeðferðar greiddan?

Já, í mörgum tilvikum áttu rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað vegna ferða til lækna eða sjúkraþjálfara. Biddu lögmanninn þinn um að aðstoða þig.

3. Hvað er átt við með sök?

Þegar ekki er kveðið á um strangari ábyrgð í lögum eða með samningi, bera menn ábyrgð á því tjóni sem þeir valda á grundvelli svokallaðrar sakarreglu. Eitt af skilyrðunum fyrir því að tjónvaldur verði dæmdur til að greiða bætur er að hann hafi valdið tjóni með því sem kallað er saknæm háttsemi. Með því er átt við að tjónvaldurinn hafi valdið tjóninu viljandi eða með gálausri hegðun eða athafnaleysi.

4. Hvað er bótanefnd?

Samkvæmt lögum nr. 69, 1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota ber ríkinu að greiða þeim bætur sem verða fyrir tjóni sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum, t.d. vegna alvarlegra líkamsárása og kynferðisbrota. Nokkur fleiri skilyrði verða þó að vera uppfyllt. Það þarf að gera kröfu um greiðslu bóta úr ríkissjóði og það er ráðlegast að fela lögmanni að annast það. Svokölluð bótanefnd tekur ákvörðun um það hvort ríkinu beri að greiða bætur.

5. Hvað er læknisfræðileg örorka?

Bætur vegna læknisfræðilegrar örorku eru reiknaðar út frá læknisfræðilegu mati á því hversu mikið líkamlegt eða andleg tjón er talið hafa hlotist af slysi. Er læknisfræðileg örorka óháð mati á því hversu mikil áhrif örorka getur haft á tekjuöflun viðkomandi (varanleg örorka samkvæmt skaðabótalögum). Læknisfræðileg örorka er sá grundvöllur sem miðað er við þegar bætur úr slysatryggingum eru gerðar upp.

6. Hvað er matsfundur?

Það er nefnt matsfundur þegar að matsmenn, yfirleitt læknar eða læknir og lögfræðingur, sem lögmaður þinn og tryggingafélagið hafa tilnefnt eða dómstóll dómkvatt, funda með þér. Fundurinn er boðaður með fyrirvara. Þar þarft þú að svara spurningum um slysið sem þú lentir í, heilsu þína fyrir og eftir slys, atvinnusögu fyrir og eftir slys og áhugamál. Loks skoðar læknir þig. Lögmenn mæta með þér á matsfund.

7. Hvað er miski?

Með miska er átt við andlega vanlíðan, hræðslu, ótta, martraðir o.fl. sem tjónþoli þarf að lifa við af völdum slyss eða árásar. Miski er ekki bættur þegar um er að ræða bætur úr frjálsum slysatryggingum.

8. Hvað er stöðugleikapunktur?

Þegar talað er um stöðugleikapunkt eða batahvörf er átt við þá dagsetningu þegar talið er að heilsufar þitt sé orðið stöðugt og þú munir ekki ná frekari bata.

9. Hvað er tímabundið tekjutjón?

Með tímabundnu tekjutjóni er átt við þær tekjur sem hinn slasaði verður af vegna slyss fram að stöðugleikapunkti. Ef þú getur sýnt fram á að þú hafir orðið af tekjum vegna slyss eða árásar áttu rétt á að fá þann tekjumissi bættan.

10. Hvað er varanleg örorka?

Varanleg örorka segir til um skerðingu á möguleikum þínum til að afla þér tekna á starfsævinni. Þannig þýðir t.d.  10% varanleg örorka að talið sé að vegna slyssins munir þú afla þér 10% minni tekna um ævina en annars hefði verið, annað hvort með því að vinna að meðaltali 10% minna það sem eftir er starfsævinnar eða

11. Hvað er varanlegur miski?

Með varanlegum miska er verið að meta það tjón sem þú verður fyrir vegna ýmissa skerðinga á daglegum athöfnum þínum og tómstundum, t.d. vegna minni möguleika á útivist, erfiðleika við hreyfingu og breytinga á ýmsum áhugamálum. Með einföldun má segja að um skerðingu lífsgæða sé að ræða. Hæstur er varanlegur miski 100%, en þá er átt við að viðkomandi sé nánast ósjálfbjarga. Viðkomandi fengi þá rúmlega kr. 8.000.000 í bætur fyrir varanlegan miska. Bætur fyrir minni miska reiknast í hlutfalli við það. Algengur metinn miski vegna háls- og/eða bakverkja af völdum umferðarslyss er 5-20%. Varanlegur miski er ekki bættur þegar um er að ræða bætur úr frjálsum slysatryggingum.